top of page

Það þurfa ekki lengur allir eigendur í fjöleignarhúsi að undirrita endurnýjun á lóðarleigusamningi

Hinn 10. júní sl. samþykkti Alþingi breytingar á lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús og tóku breytingarnar strax gildi. Með breytingunum bættist m.a. við ný málsgrein í 71. gr laganna sem hljóðar svo:


“Stjórn húsfélags getur undirritað skjöl sem varða meðferð og skráningu fjöleignarhúss í opinberum skrám, ef þau hafa einvörðungu að geyma samantekt, skráningu og lýsingu á húsi og skiptingu þess í samræmi við þinglýstar heimildir og útreikning á hlutfallstölum í samræmi við gildandi reglur þar að lútandi, þegar eignarhlutar eru sex eða fleiri en ella skulu slík skjöl undirrituð af meiri hluta eigenda, annaðhvort miðað við fjölda eða hlutfallstölur, svo sem undirritun skjals vegna endurnýjunar á lóðarleigusamningi og undirritun eignaskiptayfirlýsingar, sbr. 2. mgr. 16. gr.”


Ástæða þessara breytinga koma fram í greinargerð með frumvarpinu en þar segir:


"Í núverandi framkvæmd hefur reynst erfitt að safna undirskriftum allra eigenda þegar endurnýja þarf lóðarleigusamning fyrir fjölbýlishús. Á það einkum við þegar margir þinglýstir eigendur eru á sömu lóð en í þeim tilfellum getur oft tekið langan tíma, jafnvel mörg ár, að safna undirskriftum allra eigenda. Óbreytt fyrirkomulag getur því valdið þeim eigendum sem vilja selja eignir sínar töluverðum vandkvæðum þar sem sýslumannsembættin hafa hafnað þinglýsingu afsals þegar lóðaleigusamningur er útrunninn. Lagt er til að heimila stjórn húsfélags að undirrita skjöl vegna endurnýjunar lóðarleigusamnings, sem og önnur skjöl sem varða opinbera skráningu fjöleignarhúss, til að greiða fyrir þinglýsingu afsala og draga úr þeim hindrunum sem eigendur standa frammi fyrir við kaup og sölu á fasteignum sínum."


Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir lögmaður

www.fasteignamal.is






bottom of page