Aðalfundir húsfélaga
Samkvæmt lögum um fjöleignarhús skal aðalfundur húsfélags haldinn ár hvert fyrir lok aprílmánaðar.
Boðun aðalfundar
Stjórn húsfélags skal boða til aðalfundar skriflega og/eða rafrænt og með sannanlegum hætti með minnst 8 og mest 20 daga fyrirvara. Búi félagsmaður ekki í húsinu verður hann að tilkynna húsfélaginu um heimilisfang og/eða netfang sem senda skal fundarboð til óski hann eftir að fá það í hendur. Í fundarboði skal greina fundartíma, fundarstað og dagskrá. Þá skal geta þeirra mála sem ræða á og meginefni tillagna þeirra sem leggja á fyrir fundinn. Vilji eigandi fá mál tekið fyrir og til atkvæðagreiðslu á aðalfundi skal hann greina stjórn frá því skriflega og/eða rafrænt með þeim fyrirvara að unnt sé að geta þeirra í fundarboði.
Á aðalfundi skulu fyrir tekin eftirtalin mál:
1. Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
2. Framlagning ársreikninga til samþykktar og umræður um þá.
3. Kosning formanns.
4. Kosning annarra stjórnarmanna.
5. Kosning varamanna.
6. Kosning endurskoðanda og varamanns hans.
7. Framlagning rekstrar- og framkvæmdaáætlunar fyrir næsta ár.
8. Ákvörðun hússjóðsgjalda.
9. Mál sem tiltekin eru í fundarboði.
10. Önnur mál.
Rétt til fundarsetu
Rétt til fundarsetu hafa félagsmenn, makar þeirra, sambúðarfólk, svo og ráðgjafar og sérfræðingar á þeirra vegum og/eða stjórnar húsfélagsins. Maki eða sambúðaraðili getur farið með atkvæðisrétt fyrir félagsmann á fundi án sérstaks umboðs. Sama á við um ráðandi starfsmenn þegar lögaðili er eiganda.
Þá má félagsmaður veita sérhverjum lögráða manni umboð til að mæta á fundi, taka þátt í fundarstörfum og greiða atkvæði. Skal umboðsmaður leggja fram á fundinum dagsett, skriflegt eða rafrænt umboð. Slíkt umboð má hvenær sem er afturkalla.
Fundurinn getur heimilað leigjendum í húsinu og öðrum sem geta átt hagsmuna að gæta að sitja fundi og hafa þar málfrelsi en hvorki tillögu- né atkvæðisrétt.
Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og húsvörður eru skyldir til að mæta á fundi nema fundarseta þeirra sé bersýnilega óþörf eða þeir hafi lögmæt forföll. Þá er endurskoðanda húsfélagsins rétt að sækja fundi og taka til máls og gefa skýringar.
Fundarstjórn og fundargerð
Aðalfundi er stjórnað af formanni húsfélagsins, en ef hann er ekki viðstaddur velur fundurinn sjálfur fundarstjóra úr hópi félagsmanna. Stjórn húsfélagsins getur falið utanaðkomandi sérfræðingi að stjórna húsfundi enda sé þess getið í fundarboði og samþykkt á fundinum af einföldum meiri hluta fundarmanna, annað hvort miðað við fjölda eða eignarhluta. Einnig er stjórn heimilt að fá utanaðkomandi aðila til að rita fundargerð.
Undir umsjá og á ábyrgð fundarstjóra skal rita í sérstaka fundargerðarbók meginatriði allra mála sem tekin eru fyrir og allar ákvarðanir sem teknar eru og hvernig atkvæði hafa fallið ef því er að skipta. Skal fundargerðin lesin upp í lok fundar, hún leiðrétt og athugasemdir skráðar. Skal hún síðan undirrituð skriflega eða rafrænt af fundarstjóra og ritara. Heimilt er á húsfundi að fela fundarstjóra og ritara að ganga endanlega frá og staðfesta fundargerð að afloknum fundi. Skal það gert svo fljótt sem kostur er. Fundargerðir skulu jafnan vera aðgengilegar fyrir félagsmenn og eiga þeir rétt á því að fá staðfest endurrit eða ljósrit þeirra. Nauðsynlegt er að fundargerð sé rituð, lesin upp og undirrituð enda gegnir fundargerðin mikilvægu hlutverki sem heimild um einstaka húsfundi og sönnun þess sem þar fór fram.
Rafrænir aðalfundir (sjá link)
Sýnishorn aðalfundarboðs (sjá link)
Reykjavík 28. mars 2022
Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir lögmaður
Fasteignamál Lögmannsstofa
gudfinna@fasteignamal.is
Comments