top of page

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir lögmaður og sáttamiðlari hjá Fasteignamál Lögmannsstofa býður upp á sáttamiðlun í fasteignamálum svo sem vegna ágreinings milli kaupenda og seljenda fasteigna, eigenda í fjöleignarhúsum, leigusala og leigjenda og aðila verksamnings.

 

Sáttamiðlun er aðferð til að leysa ágreining þar sem hlutlaus aðili aðstoðar deiluaðila að leysa ágreininginn í sameiningu.

 

Deiluaðilar taka sjálfviljugir þátt í sáttamiðlun og þurfa því að vera lausnamiðaðir og tilbúnir til að reyna leysa ágreininginn sín á milli.  

 

Sáttamiðlunarferlinu er stýrt af sáttamiðlara, sem er hlutlaus og óhlutdrægur. Sáttamiðlarinn aðstoðar deiluaðila við að leysa ágreininginn sín á milli. Það gerir hann með umræðum og spurningum og sér til þess að hlustað sé á deiluaðila og þeir hafi jafnan rétt til að tjá sig. Sáttamiðlarinn aðstoðar aðila við að skilja stöðu sína, þarfir og sameiginlega hagsmuni svo aðilar geti komist að sameiginlegri niðurstöðu með samkomulagi. Með sáttamiðlun komast aðilar hjá langdregnum og kostnaðarsömum dómsmálum.

 

Í sáttamiðlun er lausn deilunnar sett í forgang og aðilarnir sjálfir spila stærsta hlutverkið, ólíkt hefðbundnum dómsmálum. Sáttamiðlun veitir ákveðið frelsi við lausn ágreinings og eru aðilar ekki bundnir af sömu málsmeðferðarreglum og gilda fyrir dómstólum.  

 

Hugmyndafræði sáttamiðlunar byggir á því að deiluaðilar séu sérfræðingar í sinni deilu og því best til þess fallnir að leysa ágreininginn með aðstoð hlutlauss sáttamiðlara sem sér til þess að hlustað sé á þá og að þeir fái tíma til að koma fram með sín sjónarmið og tillögur að lausn. Aðilarnir sjálfir eiga samtalið og lausnina að ágreiningnum.

 

Sáttamiðlun fylgir yfirleitt þessu ferli: 

·        Aðilar sammælast um að leysa ágreininginn með aðstoð hlutlauss og óháðs sáttamiðlara. 

·        Aðilar hittast ásamt sáttamiðlara á hlutlausum stað.

·        Sáttamiðlarinn fer yfir það hvernig sáttamiðlunarferlið gengur fyrir sig. 

·        Aðilar útskýra sína hlið málsins og upplifun af ágreiningnum.  

·        Hagsmunir og þarfir aðila eru ræddar. 

·        Hugmyndum og tillögum að lausn deilunnar er velt upp og þær ræddar.

·        Komist er að samkomulagi í sameiningu. 

Þar sem sáttmiðlun er valfrjálst ferli sem deiluaðilar taka sjálfviljugir þátt í geta þeir ákveðið á hvaða tímapunkti sem er að slíta sáttamiðlun.

Sáttamiðlari er bundinn þagnarskyldu um allt sem fram kemur í sáttamiðluninni og í tengslum við hana, nema aðilar semji um annað eða lög krefjist.

Sáttamiðlari skal vera hlutlaus, óhlutdrægur og óháður aðilum og ágreiningsmálum þeirra.

Sá sem hefur komið að ágreiningi sem sáttamiðlari getur ekki eftir það gætt hagsmuna annars aðilans í máli sem tengist ágreiningnum.

Frekari upplýsingar um sáttamiðlun er að finna á heimasíðu Sáttar, félags um sáttamiðlun, m.a. lög Sáttar og siðareglur sáttamiðlara.

https://www.satt.is/

bottom of page