top of page

Skil leiguhúsnæðis

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir lögmaður

Fasteignamál Lögmannsstofa

Grein 10. október 2020

Að leigutíma loknum skal leigjandi skila húsnæðinu í hendur leigusala ásamt tilheyrandi fylgifé í sama ástandi og hann tók við því. Leigjandi ber óskerta bótaábyrgð á allri rýrnun húsnæðisins eða spjöllum á því, að svo miklu leyti sem slíkt telst ekki eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar húsnæðisins eða stafar af atvikum sem voru leigjanda sannanlega óviðkomandi.

Bótakröfu á hendur leigjanda verður leigusali að lýsa skriflega, eða hafa uppi áskilnað þar að lútandi, innan fjögurra vikna frá skilum húsnæðisins. Hafi ágallar ekki verið sýnilegir við skil skal þeim lýst með sama hætti innan fjögurra vikna frá því að þeirra varð vart. Sé þessara tímamarka ekki gætt fellur bótaréttur leigusala niður nema leigjandi hafi haft svik í frammi.

Ef leigusali og leigjandi koma sér ekki saman um bótafjárhæð vegna skemmda á hinu leigða húsnæði skal úttektaraðili meta tjónið. Aðilar þurfa að kom sér saman um úttektaraðila og þeir verða báðir að vera viðstaddir skoðun hans. Aðilar geta hvor um sig krafist mats dómkvaddra manna á bótafjárhæðinni innan átta vikna frá því að þeim var kunn niðurstaða úttektaraðila.

Ef ágreiningur er milli aðila leigusamnings svo sem um skil leiguhúsnæðis geta þeir leitað til kærunefndar húsamála og/eða dómstóla.

Mikilvægt er að aðilar gæti þeirra tímafresta sem húsaleigulögin kveða á um til að glata ekki rétti sínum sem og að gerðar séu úttektir við upphaf leigutíma til að sönnun liggi fyrir um ástand húsnæðisins við upphaf leigutíma. Þetta getur reynst mikilvægt ef ágreiningur rís um ástand húsnæðisins við lok leigutíma.

Hér verða raktar helstu reglur húsaleigulaga í þessu sambandi og nokkur dæmi nefnd úr úrskurðum kærunefndar húsamála m.a. þegar leigusali lýsir ekki bótakröfu eða gerir ekki áskilnað um hana innna fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðis eða vísar ekki ágreiningi til kærunefndar húsamála innan fjögurra vikna frá því að leigjandi hafnaði kröfunni.

Trygging fyrir réttum efndum, þ.e. leigugreiðslum og skaðabótum vegna tjóns

Áður en afhending hins leigða húsnæðis fer fram er leigusala rétt að krefjast þess að leigjandi setji tryggingu fyrir réttum efndum leigusamningins, þ.e. fyrir leigugreiðslum og skaðabótum vegna tjóns á hinu leigða húsnæði sem leigjandi ber ábyrgð á samkvæmt ákvæðum húsaleigulaga eða almennum reglum.

Geri leigusali kröfu um tryggingu skal hún vera með einhverjum eftirfarandi hætti:

1. Ábyrgðaryfirlýsing banka eða samsvarandi aðila (bankaábyrgð).

2. Sjálfskuldarábyrgð þriðja aðila, eins eða fleiri.

3. Leigugreiðslu- og viðskilnaðartrygging sem leigjandi kaupir hjá viðurkenndu tryggingafélagi.

4. Tryggingarfé sem leigjandi greiðir til leigusala. Leigusali skal varðveita féð á sérgreindum óbundnum reikningi hjá viðskiptabanka eða sparisjóði sem ber svo háa vexti sem kostur er til greiðsludags sem greiðist leigjanda reyni ekki á trygginguna. Óheimilt er að gera fjárnám í fénu meðan það er í vörslu leigusala. Leigusali má ekki ráðstafa fénu eða taka af því án samþykkis leigjanda nema fyrir liggi endanleg niðurstaða um bótaskyldu leigjanda. Þó er leigusala jafnan heimilt að ráðstafa tryggingarfénu til greiðslu á vangoldinni leigu, bæði á leigutímanum og við lok leigutímans.

5. Gjald í samtryggingarsjóð leigusala sem er lögaðili sem í atvinnuskyni leigir út húsnæði. Eingöngu er heimilt að nýta sjóðinn til að greiða tjón sem leiðir af vanefndum á leigusamningum leigusala. Leigusali skal halda samtryggingarsjóði aðskildum frá öðrum rekstrarþáttum í starfsemi sinni.

6. Önnur trygging en greinir í 1.–5. tölul.) sem leigjandi býður fram og leigusali metur gilda og fullnægjandi.

Leigusali getur valið á milli framangreindra tryggingarkosta, en leigjanda er þó rétt að hafna því að reiða fram tryggingarfé skv. 4. tölul., enda bjóði hann þá fram í staðinn annars konar tryggingu sem að mati leigusala er fullnægjandi.

Fjárhæð eða hámark tryggingar eða ábyrgðar

Fjárhæð eða hámark tryggingar eða ábyrgðar skv. 1., 3. og 6. tölul., þ.e. ábyrgðaryfirlýsing banka eða samsvarandi aðila, leigugreiðslu- og viðskilnaðartrygging eða önnur trygging, fer eftir samkomulagi aðila.

Sjálfsskuldarábyrgð þriðja aðila skv. 2. tölul. og tryggingarfé skv. 4. tölul. mega ekki nema hærri fjárhæð en svarar þriggja mánaða húsaleigu samkvæmt samningi aðila.

Gjald samkvæmt 5. tölul., þ.e. í samtryggingarsjóð, má aldrei nema hærri fjárhæð en svarar 1/ 10 af húsaleigu samkvæmt samningi aðila. Gjald sem leigjandi greiðir í samtryggingarsjóð leigusala er ekki endurgreitt við lok leigutíma.

Bótakrafa í tryggingarfé skv. 4. tölul.

Leigusali skal svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðisins gera leigjanda skriflega grein fyrir því hvort hann gerir kröfu í tryggingarfé skv. 4. tölul. eða hefur uppi áskilnað um það.

Hafi leigusali ekki gert slíka kröfu skal hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt vöxtum án ástæðulauss dráttar og skal hann greiða leigjanda dráttarvexti frá þeim degi er fjórar vikur eru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hann skilar tryggingarfénu.

Geri leigusali kröfu í tryggingarféð innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðisins skal leigjandi tilkynna leigusala skriflega hvort hann hafnar eða fellst á kröfuna innan fjögurra vikna frá móttöku kröfunnar.

Hafni leigjandi kröfu leigusala ber leigusala að vísa ágreiningi um bótaskyldu leigjanda til kærunefndar húsamála eða höfða mál um bótaskyldu leigjanda innan fjögurra vikna frá þeim degi er leigjandi hafnaði kröfunni ella skal hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt vöxtum án ástæðulauss dráttar.

Verði ágreiningur um bótaskyldu leigjanda lagður fyrir kærunefnd húsamála eða almenna dómstóla skal tryggingarféð vera áfram í vörslu leigusala þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir um bótaskyldu leigjanda.

Bótakrafa í tryggingu eða ábyrgð skv. 1.–3. og 6. tölul.

Leigusali skal svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðis gera leigjanda skriflega grein fyrir því hvort hann gerir kröfu í tryggingu eða ábyrgð skv. 1.–3. og 6. tölul. eða hefur uppi áskilnað um það.

Hafi leigusali ekki gert slíka kröfu fellur trygging eða ábyrgð úr gildi. Þegar trygging eða ábyrgð er niður fallin samkvæmt þessu skal leigusali skila leigjanda viðskiptabréfum eða öðrum skilríkjum sem hann hefur afhent fyrir tryggingunni og leigjandi hefur lögvarða hagsmuni af að fá aftur.

Geri leigusali kröfu í tryggingu eða ábyrgð innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðisins skal leigjandi tilkynna leigusala skriflega hvort hann hafnar eða fellst á kröfuna innan fjögurra vikna frá móttöku kröfunnar.

Hafni leigjandi kröfu leigusala ber leigusala að vísa ágreiningi um bótaskyldu leigjanda til kærunefndar húsamála eða höfða mál um bótaskyldu leigjanda innan fjögurra vikna frá þeim degi er leigjandi hafnaði kröfunni ella fellur trygging eða ábyrgð úr gildi.

Trygging eða ábyrgð skal halda gildi sínu þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir um bótaskyldu leigjanda.

Þegar trygging er sett skv. 1.–3. tölul. og 6. tölul. skal leigusali gæta þess að því marki sem eðlilegt og sanngjarnt má telja að gera ábyrgðar- og tryggingaraðilum viðvart um vanefndir leigjanda og önnur þau atriði sem varðað geta hagsmuni þeirra og ábyrgð.

Úttekt leiguhúsnæðis

Leigjandi og leigusali eða umboðsmenn þeirra skulu gera úttekt á ástandi hins leigða húsnæðis áður en afhending fer fram og við lok leigutíma.

Ef annar aðilinn óskar þess skal óháður úttektaraðili annast úttektina og skiptist kostnaðurinn við úttektina þá að jöfnu milli þeirra. Skulu leigjandi og leigusali koma sér saman um úttektaraðila.

Úttekt skal leggja til grundvallar ef ágreiningur verður um bótaskyldu leigjanda við skil húsnæðisins.

Kærunefnd húsamála

Greini aðila leigusamnings á við gerð og/eða framkvæmd leigusamnings geta þeir, einn eða fleiri, leitað atbeina kærunefndar húsamála sem kveður upp skriflegan úrskurð.

Úrskurðir kærunefndar eru bindandi gagnvart málsaðilum og sæta ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Úrskurðir kærunefndar húsamála eru aðfararhæfir án undangengins dóms.

Úrskurðir kærunefndar húsamála

Hér er að finna nokkur dæmi um niðurstöður í úrskurðum kærunefndar húsamála:

Mál nr. 34/2020

„Óumdeilt er að sóknaraðili skilaði hinu leigða húsnæði 29. febrúar 2020. Með tölvupósti varnaraðila, sendum sóknaraðila 3. mars 2020, er að finna lista yfir atriði sem hún taldi að þyrfti að lagfæra eftir leigutímann. Með tölvupósti sóknaraðila, sendum varnaraðila 7. mars 2020, hafnaði hann kröfu varnaraðila. Með hliðsjón af því að varnaraðili vísaði ágreiningi um bótaskyldu sóknaraðila hvorki til kærunefndar húsamála né dómstóla innan fjögurra vikna frá þeim degi ber henni að skila tryggingarfénu ásamt vöxtum, án ástæðulauss dráttar. Þá ber henni að greiða dráttarvexti af tryggingarfénu samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi er fjórar vikur voru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hún skilar tryggingarfénu, sbr. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Þar sem sóknaraðili skilaði varnaraðila íbúðinni 29. febrúar 2020 reiknast dráttarvextir frá 28. mars 2020.“

Mál nr. 25/2020

„Samkvæmt upplýsingum sóknaraðila, sem bárust vegna beiðni kærunefndar um frekari upplýsingar, lauk leigutíma 15. janúar 2020. Þá staðfesti sóknaraðili að hún hafi fyrst gert kröfu í tryggingu varnaraðila 13. janúar 2020 og að varnaraðili hafi hafnað henni sama dag. Kæra sóknaraðila var móttekin hjá kærunefnd húsamála 3. mars 2020. Þannig er ljóst að sóknaraðili vísaði ágreiningi ekki til kærunefndar húsamála innan fjögurra vikna frá þeim degi sem varnaraðili hafnaði kröfunni í samræmi við ákvæði 5. mgr. 41. gr. húsaleigulaga. Þegar af þeirri ástæðu ber að hafna kröfu sóknaraðila í tryggingu varnaraðila.“

Mál nr. 108/2019

„Óumdeilt er að leigutíma lauk 1. október 2019. Í svarbréfi sóknaraðila við beiðni kærunefndar um upplýsingar um það hvort skrifleg krafa hafi verið gerð í tryggingu varnaraðila áður en kæra hafi verið lögð fram, segir að maki sóknaraðila hafi sent maka varnaraðila rafræn skilaboð 16. október 2019 þar sem gerður hafi verið áskilnaður um kröfu í tryggingarféð. Í samskiptunum segir maki sóknaraðila nánar tiltekið að varðandi trygginguna þá þurfi að skoða það, húsið væri langt því frá að vera í umsömdu ásigkomulagi, eldhúsborðið ónýtt og fleira. Kæra sóknaraðila er dagsett og móttekin hjá kærunefnd 30. október 2019. Ljóst er því að ágreiningi um kröfu sóknaraðila var vísað til kærunefndar innan lögbundins frests. Krafa sóknaraðila byggir á því að íbúðin hafi verið óþrifin við lok leigutíma og hann hafi sjálfur þurft að þrífa hana. Gegn neitun varnaraðila hefur sóknaraðila ekki tekist að sanna að íbúðin hafi verið óþrifin og enginn sérstakur kostnaður virðist hafa fallið til vegna þessa. Telur kærunefnd því að sóknaraðila sé óheimilt að halda eftir hluta af tryggingarfénu á þessum grundvelli. Íbúðin var leigð ásamt ýmsum lausafjármunum. Sóknaraðili lýsir því að skemmdir hafi orðið á borðstofuborði og leðurstól í stofu. Einnig hafi orðið skemmdir á hurðarkarmi í forstofu, forstofuljós hafi verið ónýtt, skemmd orðið á fataskáp í barnaherbergi, djúpar rispur á svefnherbergishurð, rúllugardína ónýt í barnaherbergi og skemmd á parketi þar. Varnaraðili hafnar því að framangreindar skemmdir sé að rekja til notkunar íbúðarinnar á leigutíma þar sem íbúðin hafi verið í þessu ástandi við upphaf leigutíma. Ekki var gerð úttekt á hinu leigða við upphaf leigutíma. Kærunefnd telur því að gegn mótmælum varnaraðila hafi sóknaraðila ekki tekist að sanna að umræddar skemmdir séu tilkomnar vegna notkunar varnaraðila á íbúðinni á leigutíma. Kröfu sóknaraðila hér um er því hafnað. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er það niðurstaða kærunefndar að sóknaraðila beri að endurgreiða varnaraðila tryggingarfé að fjárhæð 295.000 kr. ásamt vöxtum, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga.“

Mál nr. 3/2020

„Leigutíma lauk 31. október 2019 og skilaði sóknaraðili íbúðinni þann dag. Óumdeilt er að krafa var fyrst gerð af hálfu varnaraðila í tryggingarféð með tölvupósti sendum sóknaraðila 6. desember 2019. Ljóst er því að krafa varnaraðila barst ekki innan lögbundins frests, sbr. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Í þessu tilliti hefur það enga þýðingu hvort sóknaraðili hafi áður krafist endurgreiðslu tryggingarfjárins eða ekki, enda ber honum ekki skylda til þess. Jafnframt telur kærunefnd að það hafi ekki áhrif á úrlausn málsins þótt sóknaraðili hafi fallist á að greiða fyrir meintar skemmdir á hinu leigða þar sem krafa varnaraðila í tryggingarféð var ekki gerð innan lögbundins frests og samþykki var með fyrirvara um fjárhæð af hálfu sóknaraðila, sem féll frá samþykkinu nokkrum vikum síðar er varnaraðili nefndi umkrafða fjárhæð. Til vara gerir varnaraðili kröfu um að henni hafi verið heimilt að ráðstafa tryggingarfénu til greiðslu á vangoldinni leigu. Sóknaraðili greiddi leigufjárhæðina með evrum. Samkvæmt rafrænum samskiptum aðila 30. nóvember 2018 féllst varnaraðili á að lækka leiguna tímabundið í 1700 evrur frá 1. desember 2018 vegna gengisþróunar. Er því ekki unnt að fallast á að um leiguvanskil geti verið að ræða frá 1. desember 2018 til 3. júlí 2019 en þann dag óskaði sóknaraðili þess með tölvupósti að leigan yrði hækkuð á ný í 1900 evrur. Aðilar náðu ekki að samkomulag þar um og í framhaldinu tók sóknaraðili ákvörðun um að ljúka leigusamningi. Kærunefnd telur sýnt af samskiptum aðila að báðir hafi litið svo á að samþykki beggja væri nauðsaynlegt fyrir hækkun leigunnar í þá fjárhæð sem samið hafið verði um í upphafi samningstíma. Fær það einnig stuðning í því að í fyrrnefndum tölvupósti varnaraðila til sóknaraðila 6. desember 2019 segir að ekki hafi komið til endurgreiðslu tryggingarfjárins vegna skemmda sem hafi orðið á hinu leigða á leigutíma en ekki minnst á meint leiguvanskil. Krafa um greiðslu á meintum leiguvanskilum kom fyrst upp í greinargerð varnaraðila í því máli sem hér um ræðir. Gögn málsins benda þannig ekki til annars en að varnaraðili hafi tekið athugasemdalaust við leigugreiðslum út leigutímann og sóknaraðili þannig, auk framanritaðs, mátt vænta þess að um fullnaðargreiðslur væri að ræða. Því er ekki fallist á að varnaraðila sé heimilt að ráðstafa tryggingarfénu með vísan til 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Með hliðsjón af framangreindu og því að varnaraðili gerði ekki í kröfu í tryggingarféð innan lögbundins frests, sbr. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, ber honum að skila sóknaraðila tryggingarfénu ásamt vöxtum, án ástæðulauss dráttar. Þá ber henni að endurgreiða tryggingarféð ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi er fjórar vikur voru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hann skilar tryggingarfénu, sbr. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Þar sem sóknaraðili skilaði varnaraðila íbúðinni 31. október 2019 reiknast dráttarvextir frá 28. nóvember 2019.“

Mál nr. 110/2019

„Leigutíma lauk 30. nóvember 2019 samkvæmt því sem framar segir. Fram kemur í greinargerð varnaraðila að hann hafi neitað að endurgreiða eftirstöðvar tryggingarfjárins á þeirri forsendu að skemmdir hafi orðið á hinu leigða á leigutíma og að hann hafi sagt sóknaraðila það. Ekki verður ráðið af gögnum málsins sem hafa að geyma íslenskan texta að varnaraðili hafi skriflega gert kröfu í tryggingarféð á þeirri forsendu að skemmdir hafi orðið á hinu leigða á leigutíma innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðisins og ber honum þegar af þeirri ástæðu að endurgreiða sóknaraðila eftirstöðvar þess að fjárhæð 252.000 kr. Að auki liggur ekki fyrir sundurliðun á fjárhæð meints tjóns varnaraðila. Samkvæmt 4. mgr. og 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, ber fjárhæðin vexti frá þeim tíma þegar tryggingarféð var lagt fram og dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga, nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er fjórar vikur eru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er leigusali skilar tryggingarfénu. Kærunefnd miðar við að íbúðinni hafi verið skilað 30. nóvember 2019 og reiknast dráttarvextir því frá 28. desember 2019.“

Mál nr. 106/2019

„Sóknaraðili segir að varnaraðili hafi valdið skemmdum á hinu leigða. Engar frekar lýsingar eða gögn liggja til stuðnings þessari fullyrðingu. Þá sýna gögn málsins ekki fram á að sóknaraðili hafi gert skriflega kröfu í tryggingarféð á þeirri forsendu að skemmdir hafi orðið á hinu leigða. Kröfu sóknaraðila um að ganga að tryggingarfénu á þeirri forsendu sem sóknaraðili krefur er því hafnað. Aftur á móti telur kærunefnd að sóknaraðila sé heimilt að ráðstafa tryggingarfénu til greiðslu á vangoldinni leigu, sbr. framangreind 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga.“

Mál nr. 83/2019

„Með hliðsjón af framangreindum samskiptum aðila er ljóst að varnaraðili gerði kröfu í tryggingarféð vegna meintra skemmda innan fjögurra vikna frá skilum húsnæðisins. Jafnframt er ljóst að sóknaraðili hafnaði kröfu varnaraðila innan fjögurra vikna frá móttöku hennar. Ljóst er að varnaraðili vísaði ágreiningi um bótaskyldu sóknaraðila hvorki til kærunefndar húsamála né höfðaði mál um bótaskyldu hans innan fjögurra vikna frá þeim degi og ber honum þegar af þeirri ástæðu að endurgreiða sóknaraðila tryggingarféð, að fjárhæð 200.000 kr., ásamt vöxtum, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, án ástæðulauss dráttar. Þá ber honum að endurgreiða tryggingarféð ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi er fjórar vikur voru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hann skilar tryggingarfénu, sbr. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Leigutími var samkvæmt samkomulagi til 15. júlí 2019 og reiknast dráttarvextir því frá 12. ágúst 2019.“

Mál nr. 67/2019

„Leigutíma lauk 1. maí 2019 og skilaði sóknaraðili íbúðinni til varnaraðila þann dag. Sóknaraðili óskaði eftir endurgreiðslu tryggingarfjárins 1. maí 2019 og ítrekaði þá beiðni 7. maí 2019. Samkvæmt samskiptum aðila 10. maí 2019 hugðist varnaraðili ekki endurgreiða tryggingarféð vegna skemmda á hurð og verður því miðað við að varnaraðili hafi gert kröfu í tryggingarféð þann dag. Ljóst er af samskiptum aðila að sóknaraðili hafnaði kröfu varnaraðila og ítrekaði hún beiðni um endurgreiðslu tryggingarfjárins með rafrænum skilaboðum 23. maí 2019. Þannig er ljóst að ágreiningur var um bótaskyldu sóknaraðila og mátti varnaraðila vera það ljóst 23. maí 2019, sbr. framangreind rafræn skilaboð sóknaraðila. Þar sem varnaraðili vísaði ágreiningi um bótaskyldu leigjanda hvorki til kærunefndar húsamála né höfðaði mál um bótaskyldu leigjanda innan fjögurra vikna frá þeim degi, ber henni að skila sóknaraðila tryggingarfénu ásamt vöxtum án ástæðulauss dráttar, sbr. 2. málsl. 5. mgr. 40. gr. húsaleigulaga og 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Þá ber henni að endurgreiða tryggingarféð ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi er fjórar vikur voru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hún skilar tryggingarfénu, sbr. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Sóknaraðili skilaði hinu leigða 1. maí 2019 og reiknast dráttarvextir því frá 29. maí 2019.“

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir lögmaður

gudfinna@fasteignamal.is

Comentários


bottom of page