Sáttamiðlun í fasteignamálum
Ágreiningsmál sem tengjast fasteignum eru margvísleg, svo sem milli kaupanda og seljanda vegna galla í fasteignum, milli eigenda í fjöleignarhúsum, milli leigusala og leigjanda og milli húsfélags og verktaka vegna viðhaldsframkvæmda. Oft bera ágreiningsmál sem lúta að fasteignum illa þann kostnað sem leiðir af langvarandi ágreiningi. Dómsmál sem kunna að rísa út af slíkum ágreiningi geta tekið langan tíma og verið kostnaðarsöm. Sáttamiðlun í slíkum málum getur verið góður valkostur sem getur leitt til skjótrar lausnar og sparað deiluaðilum verulegar fjárhæðir, tíma og hugarangur.
Sáttamiðlun er aðferð til að leysa ágreining milli deiluaðila. Sáttamiðlun er stýrt af hlutlausum sáttamiðlara sem leiðir deiluaðila í gegnum skipulagt og mótað ferli með það að markmiði að aðstoða þá að komast að samkomulagi um lausn deilunnar. Hlutverk sáttamiðlarans er að byggja brú milli deiluaðila og hjálpa þeim að eiga uppbyggilegt samtal, koma auga á sameiginlega hagsmuni og aðstoða þá við að setja fram nothæfar lausnir. Sáttamiðlarinn beitir ákveðinni samtalstækni, spyr opinna spurninga og hjálpar aðilum að sjá deiluna út frá ólíkum hliðum og nýjum sjónarhornum. Með sáttamiðlun er áherslan lögð á lausn deilunnar og leika deiluaðilarnir sjálfir stærsta hlutverkið í þeirri vinnu. Sáttamiðlun veitir þannig ákveðið frelsi við lausn ágreinings og eru aðilar ekki bundnir af þeim málsmeðferðarreglum sem gilda fyrir dómstólum.
Dómsmál einkennast oft af því að deiluaðilum er stillt upp sem andstæðingum og lögmenn koma fram fyrir þeirra hönd. Niðurstaðan ræðst síðan í dómi þar sem megináherslan er lögð á lagaleg atriði og deiluaðilar hafa takmarkað svigrúm til að ræða saman sín á milli. Þetta ferli er tímafrekt og ber oft ekki þann kostnað sem hlýst af málinu. Með sáttamiðlun er á hinn bóginn þess freistað að setja niður ágreining með hröðum og lausnamiðuðum hætti. Aðilarnir sjálfir eru beinir þátttakendur í lausn deilunnar og geta rætt sín á milli um atriði sem jafnvel hafa ekkert með lagalega lausn að gera og sjálfir komist að niðurstöðu sem samræmist hagsmunum beggja á skjótan og ódýran hátt. Sáttamiðlun getur tekið einn til tvo fundi meðan dómsmál taka a.m.k. eitt ár.
Við val á sáttamiðlara getur í ákveðnum tilvikum hentað að velja sáttamiðlara með faglegan bakgrunn sem hentar viðkomandi deiluefni. Sáttamiðlari með sérfræðiþekkingu á deiluefninu hefur möguleika á að setja hagsmuni deiluaðila í ákveðið samhengi út frá sérfræðiþekkingu sinni sem getur nýst aðilum við að koma auga á nýjar leiðir út úr deilunni og binda enda á ágreining þeirra.
Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, lögmaður og sáttamiðlari
Fasteignamál Lögmannsstofa
gudfinna@fasteignamal.is
Comments