Gluggar, gler og svalahurðir í fjöleignarhúsum
Í stuttu máli þá er gler í gluggum og svalahurðir í séreign en gluggar að hluta til í sameign og að hluta til í séreign samkvæmt lögum um fjöleignarhús.
Samkvæmt 3. tölul. 8. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, fellur undir sameign allur ytri gluggaumbúnaður, bæði á séreignarhlutum og sameign.
Sá hluti gluggaumbúnaðar sem er inni í séreign, svo og gler í gluggum og hurðum, telst séreign, sbr. 5. tölul. 5. gr. laganna. Þá falla svalahurðir undir séreign, sbr. 6. tölul. 5. gr. og 1.tölul. 8. gr.
Kærunefnd húsamála hefur ítrekað túlkað þetta svo að ytri gluggaumbúnaður í þessum skilningi sé sá hluti glugga sem liggur utan glers og beri húsfélag slíkan kostnað sem skiptist á milli eigendur eftir hlutfallstölum eignarhluta. Hver og einn eigandi ber síðan sjálfur kostnaðinn við innra byrði glugga í séreign sinni og glerið, sem og svalahurðina.
Þegar farið er í viðgerðir á gluggum eða þeim skipt út þarf því að finna út úr því hvaða hluti af kostnaðinum fellur undir sameign og hvað undir séreign, þ.e. hvað hluti glugga liggur fyrir innan og utan gler.
Þumalputtareglan sem hefur verið notuð er sú að helmingur af kostnaði glugga í séreign fellur undir sameignarkostnað og hinn helmingurinn undir sérkostnað viðkomandi eiganda sem og glerið og svalahurðin.
Þá hefur verið talið að öll vinna við glugga að utan, tæki, förgun o.s.frv. greiði húsfélag en vinna við glugga sem fer fram innan íbúðar viðkomandi eigandi.
4. desember 2024
Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir lögmaður
Comentarios