Breytingar á húsaleigulögum
Hinn 1. september nk. taka í gildi lög um breytingar á húsaleigulögum og taka til leigusamninga sem komast á eftir það, þ.m.t. leigusamninga sem eru endurnýjaðir eða framlengdir eftir það tímamark. Aðilum er einnig heimilt að semja um að ákvæði laganna taki til leigusamninga sem gerðir voru fyrir gildistöku þeirra, eftir því sem við getur átt.
Hér verður farið yfir breytingarnar. Í kafla I. er í stuttu máli farið yfir meginforsendur breytinganna eins og þeim er lýst í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum. Í kafla II. er samantekt á breytingunum. Í kafla III. hvaða breytingar verða á öðrum lögum vegna þessara breytinga.
I.
Í greinargerð með frumvarpi því sem lagt var fram um breytingar á húsaleigulögum kemur fram að lagðar séu til breytingar á húsaleigulögum sem hafa það að markmiði að auka réttarvernd og húsnæðisöryggi leigjenda með því að stuðla að aukinni langtímaleigu og fyrirsjáanleika um breytingar á leigufjárhæð, jafnt á samningstímanum sem við framlengingu eða endurnýjun leigusamnings, og hvernig koma megi í veg fyrir að samningar verði gerðir til skamms tíma í því skyni að hækka leigufjárhæð við endurnýjun samnings umfram það sem sanngjarnt og eðlilegt getur getur talist í skilningi húsaleigulaga.
Þannig gangi breytingarnar út á meiri fyrirsjáanleika um leiguverð á samningstíma og milli samninga og sé almenn skráningarskylda leigusamninga um íbúðarhúsnæði eða annað húsnæðis sem leigt er til íbúðar í leiguskrá nauðsynleg til að tryggja nauðsynlegar upplýsingar um markaðsleigu sambærilegs húsnæðis. Lagt væri til að allir leigusalar ættu að skrá leigusamninga um íbúðarhúsnæði eða annað húsnæði sem leigt er til íbúðar. Þannig yrði komið á almennri skráningarskyldu slíkra leigusamninga, fjárhæð húsaleigu og breytingar á henni og skyldu til afskráningar samninga að leigutíma loknum í leiguskrá húsnæðisgrunns Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) í því skyni að tryggja áreiðanlegar og heildstæðar upplýsingar um leigumarkaðinn, ekki síst um markaðsleigu húsnæðis sem er meginviðmið sanngjarnrar og eðlilegrar leigufjárhæðar samkvæmt húsaleigulögum. Slík almenn skráningarskylda varð hins vegar ekki að lögum.
Þá kemur fram í greinargerðinni að til að stuðla að langtímaleigu verið forgangsréttur leigjanda til áframhaldandi leigu húsnæðis að leigutíma loknum styrktur, heimildir leigusala til að segja upp ótímabundnum leigusamningum verður skýrður og stuðlað verði að því að samningar verði í auknum mæli ótímabundnir eða gerðir til lengri tíma m.a. með því að óheimilt verður að semja um að leigufjárhæðin taki breytingum þegar samningur er gerður til 12 mánaða eða skemmri tíma.
Kærunefnd húsamála verði efld til að tryggja að aðilar leigusamnings hafa aðang að virku réttarúrræði til úrlausnar á ágreiningi.
Í frumvarpinu er tíundað mikikvægi þess að lögfest yrði ákvæði um að allir leigusalar myndu skrá leigusamninga um íbúðarhúsnæði og annað húsnæðis sem notað er til íbúðar en ekki bara hluti leigusala til að ná markmiðum frumvarpsins m.a. um skýrara regluverk um fyrirsjáanleika um leigufjárhæð og að finna út markaðsleiguna sem lögin byggja á og varnaðarorð að með öðrum kosti muni ekki fást greinargóðar upplýsingar um leigumarkaðinn í heild sinni, þ.m.t. um þróun leiguverðs, tegund og lengd samninga, sem nýtast myndi aðilum leigusamninga við samningsgerð, ekki síst við ákvörðun leiguverðs. Er tekið fram í greinargerðinni að með slíkri lögfestingu verði eingöngu hægt að afla nauðsynlegra upplýsinga um leigumarkaðinn í heild sinni og væri ætlunin m.a. að tryggja betur framkvæmd þeirrar grundvallarreglu húsaleigulaga að leigufjárhæð skuli vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja en við slíkt mat skulu einkum litið til markaðsleigu. Því væri nauðsynlegt að unnt væri að nálgast greinargóðar upplýsingar um leigumarkaðinn í heild sinni sem væri grundvallarforsenda þess að koma mætti til framkvæmda þeim breytingum sem lagðar séu til í frumvarpinu. Eins og áður var rakið varð þetta ekki að lögum.
II.
Samantekt á breytingunum:
1. Það breytast að litlu leyti innbyrðis tilvísanir í nokkrum ákvæðum laganna vegna breytinga á einstökum ákvæðum.
2. Húsnæðisgrunnur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verður leiguská húsnæðisgrunns Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
3. Orðalag breytist á nokkrum stöðum úr íbúðarhúsnæði í “íbúðarhúsnæði eða annað húsnæði sem leigt er til íbúðar” og eiga allar breytingarnar við slíkt húsnæði.
4. Leigusali sem er lögaðili sem ekki er rekinn í hagnaðarskyni getur nú einnig gert að skilyrði að sérstakur húsnæðisstuðningur frá sveitafélagi sem leigjandi á rétt greiðist til hans en ekki bara húsnæðisbætur eins og er í núgildandi lögum.
5. Undirritun samkvæmt lögunum getur farið fram með rafrænni undirskrift eða eiginhandarundirskrift.
6. Nokkrar smávægilegar orðlagsbreytingar:
· Í 6. gr. laganna er fjallað um þau atriði sem m.a. þurfa að koma fram í leigusamningi. Í 11. tölulið 6. gr. segir nú: ”Forgangsréttur leigjanda skv. X. kafla.” en verður: “Forgangsréttur leigjanda og tímafrestir skv. X. kafla ef um tímabundinn leigusamning er að ræða.” Í greinargerðinni segir: “Mikilvægt þykir að þessar upplýsingar séu tilgreindar sérstaklega í slíkum leigusamningi þannig að aðilar hans séu vel upplýstir allt frá upphafi samningssambands um þýðingu forgangsréttarins og þá fresti sem um hann gilda.”
· Í 21. gr. er á eftir orðhlutanum “viðgerðar-“ kemur “endurbóta-“. Þannig að það er ekki bara viðgerðar- og viðhaldsvinna, heldur viðgerðar-, endurbóta- og viðhaldsvinna.
· Fyrirsögn á IV. Kafla “Viðhald leiguhúsnæðis” verður “Framkvæmdir á leiguhúsnæði”.
7. Riftun á leigusamningi skal skrá í leiguskrá húsnæðisgrunns Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ef samningur er skráningarskyldur skv. 1. mgr. 5. gr.
8. Leigusali skal skrá fjárhæð húsaleigu og breytingar á henni í leiguskrá húsnæðisgrunns Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ef samningur er skráningarskyldur skv. 1. mgr. 5. gr.
9. Í eftirtöldum ákvæðum er vísað sérstaklega til kærunefndar húsamála: Vísa skal ágeiningi um hækkun/leiðréttingu leigufjárhæðar skv. 37. gr. a, 37. gr. b og 37. gr. c, ágreiningi um forgangsrétt leigjanda skv. 52. gr. a og ef leigjandi telur að skilyrði uppsagnar ótímabundins leigusamnings sé ekki fyrir hendi, skv. 55. gr. a.
10. Breytingar á 85. laganna um kærunefnd húsamála: Ágreiningur um leigufjárhæð skal hljóta flýtimeðferð fyrir kærunefndinni og skal úrskurður kveðinn upp innan tveggja mánaða frá því að erindi barst henni. Þá skal ágreiningi um leigufjárhæð skv. 37. gr., 37. gr. a, 37. gr. b, 37. gr. c og 1. mgr. 53. gr. vísa til kærunefndar húsamála innan þriggja mánaða frá gildistöku leigusamnings eða samkomulags sem gert er síðar á leigutíma um breytingu á leigufjárhæð. Að öðrum kosti teljast aðilar leigusamnings una ákvörðun leigufjárhæðar.
11. Nota skal stöðluð tilkynningareyðublöð HMS varðandi hækkun/leiðréttingu leigufjárhæðar skv. 37. gr. a, 37. gr. b og 37. gr. c, um forgangsréttinn skv. 52. gr. og 52. gr. a, og um uppsögn leigusala á ótímabundnum leigusamningi skv. 55. gr. a.
12. Krafist er ástæðu leigusala og framlagningu gagna skv. 37. gr. a, og 37. gr. c., rökstuðnings leigusala að forgangsréttur sé ekki fyrir hendi skv. 52. gr. a, og ástæðu leigusala fyrir uppsögn ótímabundins leigusamnings skv. 55. gr. a.
13. Leigusali getur orðið bótaskyldur ef skilyrði uppsagnar ótímabundins leigusamnings eru ekki fyrir hendi, 55. gr. a.
14. Leigufjárhæð. Breytingar eru gerðar á 37. gr. húsaleigulaga sem fjallar um leigufjárhæðina. Þá koma þrjár nýjar greinar á eftir henni, þ.e. 37. gr. a, 37. gr. b og 37. gr. c.
15. Áfram verður gert ráð fyrir því að aðilum sé frjálst að semja um fjárhæð húsaleigu og hvort og þá með hvaða hætti hún skuli breytast á leigutímanum (þ.e. taki reglubundnum breytingum og þá hvernær og hvernig). Undantekning frá þessu er að óheimilt er að semja um að leigufjárhæð breytist á leigutímanum ef gerður hefur verið tímabundinn leigusamningur til 12 mánaða eða skemmri tíma. Leigufjárhæðin skal þó vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja aðila. Meginviðmið við mat á sanngirni er markaðsleiga sambærilegs húsnæðis en einnig ber að líta til fleiri þátta sem tilgreindir eu í 2. mgr. 37. gr.: “Við mat á því hvort fjárhæð húsaleigu sé sanngjörn og eðlileg í garð beggja aðila skal taka mið af staðháttum, atvikum og ástandi á leigumarkaði á hverjum tíma. Við matið skal einkum litið til markaðsleigu sambærilegs húsnæðis en jafnframt til almenns húsnæðiskostnaðar, þ.m.t. vaxtakostnaðar, skatta og gjalda; staðsetningar, gerðar og ástands leiguhúsnæðis; endurbóta, breytinga og viðhalds sem hvor aðila tekur að sér; leigutíma og annarra sérstakra samningsskyldna og réttinda sem eðlilegt er að hafi áhrif á leigufjárhæðina.”
16. Þannig gera húsaleigulögin ráð fyrir því að meginviðmið við mat á sanngirni leigufjárhæðar sé markaðleiga sambærilegs húsnæðis. Til að tryggja að nauðsynlegar upplýsingar myndu liggja fyrir um markaðsleigu sambærilegs húsnæðis í skilningi laganna var lagt til að lögfest yrði almenn skráningarskylda leigusamninga, þ.e. myndi ná til allra leigusala sem leigja út íbúðarhúsnæði eða annað húsnæði til íbúðar, eins og rakið er hér framan en það varð ekki að lögum.
17. Óheimilt er að semja um að leigufjárhæðin breytist á leigutímanum ef gerður er tímabundinn leigusamningur til 12 mánaða eða skemmri tíma. Þannig verður t.d. óheimilt að tengja leigufjárhæð slíkra samninga við breytingar á vísitölu. Markmið þessara breytinga er að fjölga ótímabundnum leigusamningum og langtímaleigusamningum. Leigusalar geta hins vegar gert ráð fyrir slíkum hækkunum þegar þeir ákveða leigufjárhæðina enda er beinlínis gert ráð fyrir því í greinargerðinni með frumvarpinu. Þar segir: “Jafnframt þykir eðlilegt að leiguverð sé fast þegar samningar eru gerðir til svo skamms tíma og taki þannig ekki breytingum á samningstíma, svo sem í samræmi við þróun vísitölu neysluverðs. Leigusala er þó heimilt að taka mið af vaxta- og verðbólguhorfum við ákvörðun leigufjárhæðarinnar, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna.”
18. Í 37. gr. a-37. gr. c eru lögfestar reglur sem heimila aðrar breytingar á leigufjárhæð á samningstíma leigusamninga um íbúðarhúsnæði eða annars húsnæðis sem leigt er til íbúðar til lengri tíma, þ.e. ótímabundinna samninga og tímabundinna samninga sem gerðir eru til lengri tíma en 12 mánaða, sem ekki hefur verið samið um í upphafi en nauðsynlegar eru vegna breyttra forsendna í lengri samningum, þ.e. til viðbótar því sem um var samið.
19. Til að hægt sé að gera kröfu til slíkra breytinga/leiðréttinga sem ekki var samið um í upphafi þurfa að vera liðnir meira en 12 mánuðir frá gildistöku leigusamnings.
20. 37. gr. a – þegar meira en 12 mánuðir eru liðnir frá gildistöku slíks samnings getur leigusali farið fram á hækkun leigufjárhæðar vegna verulegrar hækkunar á reksturskostnaði húsnæðisins eða sé leigusali lögaðili sem í atvinnuskyni leigir út húsnæði getur farið fram á hækkun leigufjárhæðar vegna verulegrar hækkunar á reksturskostnaði á heildarsafni slíks húsnæðis í hans eigu, til viðbótar við samkomulag sem gert hefur verið á grundvelli 1. málsl. 3. mgr. 37. gr., ef við á.
21. 37. gr. c- þegar meira en 12 mánuðir eru liðnir frá gildistöku slíks samnings getur leigusali sem er lögaðili sem ekki er rekinn í hagnaðarskyni farið fram á hækkun leigufjárhæðar til að jafna leigufjárhæð milli sambærilegs húsnæðis í hans eigu óháð staðsetningu í því skyni að stuðla að fjölbreyttri samsetningu íbúa og félagslegri blöndum.
22. Leigusali sem ætlar að fara fram á hækkun leigufjárhæðar skv. 37. gr. a eða 37. gr. c skal gera það skriflega og með sannanlegum a.m.k. þremur mánuðum áður en fyrirhugað er að hún taki gildi og nota til þess stöðluð tilkynningareyðublöð HMS. Í tilkynningunni skal leigusali tilgreina hvenær hækkunin taki gildi og ástæðu hennar og skulu fylgja henni viðeigandi gögn því til staðfestingar. Einnig skal þar greint frá heimild leigjanda að bera hækkunina undir kærunefnd húsamála. Hækkunin getur því þannig fyrst tekið gildi 15 mánuðum eftir gildistöku leigusamnings.
23. Leigjandi sem fær slíka tilkynningu á grundvelli 37. gr. a eða 37. gr. c skal innan 30 daga tilkynna leigusala hvort hann fallist á hækkunina, vísa ágreiningi um hækkunina til kærunefndar húsamála eða segja upp leigusamningum. Að öðrum kosti telst samningur kominn á um hækkun leigufjárhæðar. Hækkun leigufjárhæðar tekur gildi á þeim degi sem tilgreindur er í tilkynningu leigusala nema leigjandi segi upp samningnum. Ef leigjandi segir upp samningnum tekur hækkunin ekki gildi gagnvart honum.
24. Bregðist leigjandi ekki við tilkynningu leigusala um fyrirhugaða hækkun leigufjárhæðar innan frestsins telst samningur kominn á um hækkun leigufjárhæðarinnar. Hefur leigjandi þá þriggja mánaða frest til að bera sanngirni hennar undir kærunefnd húsamála. Komist kærunefndin að þeirri niðurstöðu að hækkunin hafi verið óréttmæt eignast leigjandi endurkröfurétt vegna þess sem ofgreitt hefur verið en úrskurðir kærunefndarinnar eru bindandi og aðfararhæfir.
25. Samkomulag um breytingu leigufjáhæðar skal gert skriflega og undirritað af aðilum leigusamnings. Breytingar á leigufárhæðar skv. 37. gr. c skal skrá leiguskrá húsnæðisgrunn HMS og skv. 37. gr. a ef samningurinn er skráningarskyldur skv. 1. mgr. 5. gr.
26. 37. gr. b - þegar meira en 12 mánuðir eru liðnir frá gildistöku samnings og umsamin leigusfjárhæð slíks samnings er lægri eða hærri en marskaðaleiga sambærilegs húsnæðis að teknu tilliti til þeirra atriða sem greinir í 2. mgr. 37. gr. getur aðili leigusamnings farið fram á leiðréttingu leigufjárhæðar að allt að markaðsleigu að teknu tilliti til þeirra atriða.
27. Aðli leigusamnings sem ætlar að fara fram á leiðréttingu leigufjárhæðar skv. 37. gr. b vegna þess að leigufjárhæðin er hærri eða lægri en markaðsleiga að teknu tilliti til þeirra atriða sem greinir í 2. mgr. 37. gr. skal nota stöðluð tilkynningareyðublöð HMS og skal breytingin gerð skriflega og undirrituð og skráð í leiguská húsnæðisgrunn HMS ef samningurnn er skráningarskyldur skv. 1. mgr. 5. gr.
28. Forgangsréttur. Reglur um forgangsrétt breytast í 51.-53. gr. Orðalagsbreytingar verða að einhverju leyti á 51. og 53. gr., 52. gr. er alveg breytt og nýtt ákvæði kemur í 52. gr. a.
29. Forgangsréttur leigjenda til áframhaldandi leigu húsnæðis að leigutíma loknum, sem gildir þegar húsnæðið er áfram falt til leigu í a.m.k. eitt ár, verður styrktur á sama tíma og hann verði takmarkaður við tímabundna leigusamninga en um rétt til áframhaldandi leigu á grundvelli ótímabundinna leigusamninga fari samkvæmt nýju ákvæði í 55. gr. a. enda miðað við að leigusali geti ekki sagt upp slíkum samningum ef sömu tilvik eiga við og um forgangsrétt leigjanda þegar um tímabundna samninga er að ræða.
30. Í því skyni að virkja forgangsréttinn er fyrirkomulaginu breytt þannig að í stað þess að á leigjanda hvíli skylda til að virkja forgangsréttinn með tilkynningu til leigusala a.m.k. þremur mánuðum fyrir lok leigutíma verði gengið út frá því að leigjandi eigi forgangsrétt til áframhaldandi leigu húsnæðis við lok leigusamnings nema þær aðstæður eigi við sem valda því að forgangsréttur leigjanda gildi ekki skv. 2. mgr. 51. gr. laganna.
31. Leigusala ber því annaðhvort að leita eftir afstöðu leigjanda til þess hvort hann hyggist nýta sér forgangsréttinn eða upplýsa leigjandann tímanlega um að hann telji aðstæður vera með þeim hætti að forgangsréttur viðkomandi sé ekki fyrir hendi.
32. Þannig hvílir þannig ekki sérstök athafnaskylda á leigjanda til að virkja forgangsrétt sinn að öðru leyti en að svara fyrirspurn leigusala um hvort hann vilji nýta sér forgangsréttinn innan lögmælts frests. Sé það ekki gert getur leigusali gengið út frá því að leigjandi ætli ekki að nýta sér forgangsréttinn. Þannig falli forgangsréttur niður bregðist leigjandi ekki við fyrirspurn leigusala innan 30 daga um hvort hann hyggist nýta sér forgangsréttinn.
33. Ef leigjandi á forgangsrétt skv. 51. gr. skal leigusali kanna vilja leigjanda til þess að nýta sér forgangsréttinn. Skal hann gera það skriflega og með sannanlegum hætti þegar þrír mánuðir en ekki skemmra en sex vikur eru eftir af umsömdum leigutíma eða til loka uppsagnarfrests eða ef tímabundinn leigusamningur hefur verið gerður til skemmri tíma en þriggja mánaða skal fresturinn vera 30 dagar. Að öðrum kosti telst leigusalinn una forgangsrétti leigjanda.
34. Ef leigjandinn vill nýta sér forgangsréttinn skal hann tilkynna leigusala það skriflega og með sannanlegum hætti innan 30 daga frá því að honum barst fyrirspurn leigusala að öðrum kosti fellur forgangsréttur hans niður.
35. Nota skal stöðluð tilkynningareyðublöð HMS um forgangsrétt leigjanda. Samkomulag um endurnýjun eða framlengingu leigusamnings á grundvelli forgangsréttar leigjanda skal gert skriflega og undirritað af aðilum leigusamningsins.
36. Ef leigusali telur að leigjandi eigi ekki forgangsrétt skal hann gera leigjanda skriflega og rökstudda grein fyrir sjónarmiðum sínum og því hvaða ástæður standi forgangsréttinum í vegi a.m.k. þremur mánuðum áður en leigusamningurinn rennur út við lok uppsagnarfrests eða við lok umsamins leigutíma eða hafi tímabundinn leigusamningur verið gerður til skemmri tíma en þriggja mánaða skal fresturinn vera 30 dagar. Að öðrum kosti telst leigusalinn una forgangsréttinum.
37. Ef leigjendi telur þær aðstæður sem valda því að forgangsréttur gildir ekki eiga ekki við í málinu skal hann andmæla afstöðu leigusala með skriflegri tilkynningu sem send skal leigusala með sannanlegum hætti innan 30 daga frá því að honum barst tilkynning leigusala eða afstaða leigusala var kynnt honum með uppsögn eða öðrum hætti.
38. Ef leigusali telur þrátt fyrir andmæli leigjanda að leigjandi eigi ekki forgangsrétt skal hann vísa ágreiningnum til kærunefndar húsamála innan 30 daga frá því að honum barst tilkynning um andmæli leigjanda. Að öðrum kosti telst hann una forgangsréttinum.
39. Nota skal stöðluð tilkynningareyðublöð HMS um forgangsrétt leigjanda við tilkynningar.
40. Þegar samningur er endurnýjaður eða framlengdur vegna forgangsréttar skal leigufjárhæðin vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja aðila. Líkur eru fyrir því að sú leigufjárhæð, sem áður gilti, sé sanngjörn og verður sá sem vefengir það að sýna fram á annað á grundvelli breytinga sem átt hafa sér stað á þeim þáttum sem greinir í 2. mgr. 37. gr. Aðrir skilmálar, sem settir eru fyrir endurnýjuðum eða framlengdum leigusamningi, skulu og gilda svo fremi að þeir séu ekki ósanngjarnir eða brjóti í bága við góðar venjur í leiguviðskiptum.
41. Uppsögn ótímabundins leigusamnings. Breytingar eru gerðar á 55. gr. og þar tekið fram að uppsögn leigusala fari skv. 55. gr. a, sem er nýtt ákvæði, og skal leigusali tilgreina ástæðu uppsagnar.
42. Í 55. gr. a kemur fram í hvaða tilvikum leigusala sé heimilt að segja upp ótímabundnum leigusamningi. Getur leigusali einungis sagt upp ótímabundnum leigusamningi um íbúðarhúsnæði eða annað húsnæði sem leigt er til íbúðar við ákveðnar aðstæður sem þar eru tilgreindar. Þarf leigusali að tilgreina ástæðu uppsagnar og nota stöðluð tilkynningareyðublöð HMS við uppsögnina.
43. Ef leigjandi telur að skilyrði til uppsagnarinnar séu ekki fyrir hendi getur hann borið ágreining um uppsögnina undir kærunefnd húsamála.
44. Hafi leigusali af ásettu ráði, svo sem með málamyndagerningum eða sviksamlegum hætti, náð til sín húsnæðinu með ólögmætri uppsögn ótímabundins leigusamnings á hann að bæta leigjanda sannanlegt fjártjón hans. Bótakröfu verður leigjandi að setja fram með sannanlegum hætti innan sex mánaða frá því að hann rýmdi húsnæðið. Að öðrum kosti fellur bótaréttur hans niður nema leigusali hafi beitt svikum.
III.
Við gildistöku laganna 1. september nk. verða breytingar á eftirtöldum lögum:
1. Lög um húsnæðismál, nr. 44/1998: Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
a. Í stað orðsins „húsnæðisgrunn“ í 1. mgr. og „húsnæðisgrunni“ í 3. mgr. kemur: leiguskrá húsnæðisgrunns.
b. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Upplýsingar um leigusamninga í leiguskrá húsnæðisgrunns.
a. Í stað orðsins „húsnæðisgrunn“ í d-lið 2. mgr. 9. gr. og 12. gr. laganna kemur: leiguskrá húsnæðisgrunns.
b. Fyrirsögn 12. gr. laganna orðast svo: Undanþága frá skilyrði um leigusamning sem skráður hefur verið í leiguskrá húsnæðisgrunns Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
a. Í stað orðsins „húsnæðisgrunn“ í 4. málsl. 3. mgr. 66. gr. og a-lið 5. tölul. 70. gr. laganna kemur: leiguskrá húsnæðisgrunns.
b. Við 2. mgr. 117. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Enn fremur skulu skattyfirvöld veita Húsnæðis- og mannvirkjastofnun upplýsingar sem nauðsynlegar eru til eftirlits með réttri skráningu upplýsinga í leiguskrá húsnæðisgrunns samkvæmt húsaleigulögum, nr. 36/1994.
Reykjavík 29.08.2024
Fasteignamál Lögmannsstofa
Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir lögmaður
Comments